Vaxtarsamningur við Suðurnes upp á 27 milljónir króna
215 milljóna króna árlegu framlagi til vaxtarsamninga iðnaðarráðuneytisins og atvinnuþróunarfélaga árin 2010 til 2013 er skipt niður á átta samningssvæði út frá fólksfjölda, þéttleika byggðar, atvinnuleysi, íbúaþróun og hagvexti á hverju svæði. Í fyrsta sinn er gerður vaxtarsamningur við Suðurnes og koma 27 milljónir króna í hlut Suðurnesja. Nýir vaxtarsamningar voru undirritaðir af Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra og fulltrúum atvinnuþróunarfélaganna í iðnaðarráðuneytinu nýverið.
Í drögum iðnaðarráðherra að byggðaáætlun 2010 til 2013 er byggt á því að vaxtarsamningarnir verði ein helsta burðarstoð atvinnuþróunar og nýsköpunar í áætluninni. Tilgangurinn er að efla staðbundna klasa og auka áhrif heimamanna á stefnumótun, framkvæmd og eftirfylgni. Mið er tekið af þeirri vinnu sem nú er í gangi við gerð heildstæðrar sóknaráætlunar fyrir alla landshluta og skipting samninganna að nokkru samræmd svæðaskiptingu áætlunnarinnar. Þannig verður sveitarfélagið Hornafjörður nú hluti af vaxtarsamningi Suðurlands. Vaxtarsamningar fyrir Eyjafjörð og Norðausturland gilda til ársloka 2010 en gerðir voru viðaukasamningar við þá. Samningur við Norðurland Vestra gildir óbreyttur til ársloka 2010. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að fjárveiting til vaxtarsamninga verði 215 m.kr. á því ári en ákvæði í samningunum um fjármögnun næstu ára eru með fyrirvara um fjárveitingar Alþingis.
Mismunandi aðstæður svæða
Í stað þess að leggja sömu fjárhæð til allra samninganna eða miða eingöngu við fólksfjölda var ákveðið að taka tillit til mismunandi aðstæðna á hverju svæði fyrir sig. Fólksfjöldi, vegalengdir, samgöngur og atvinnustig skipta til dæmis miklu máli. Við skiptingu fjár til vaxtarsamninga er miðað við fimm lykilþætti sem vegnir eru saman. Þeir eru fólksfjöldi á svæðinu, þéttleiki byggðar (hálendissvæði ofan 200 m.y.s. ekki reiknuð með), atvinnuleysi, íbúaþróun og hagvöxtur síðustu ár. Samanlagt er með þessu tekið tillit til bæði þróunar undanfarinna ára og sérstakra aðstæðna.
Niðurstaðan úr matinu varð eftirfarandi skipting fyrir árið 2010 sem nýir vaxtarsamningar byggja á:
Suðurnes: 27 milljónir króna.
Vesturland: 25 milljónir króna.
Vestfirðir: 27 milljónir króna.
Norðurland vestra: 30 milljónir króna.
Eyjafjörður: 26 milljónir króna.
Norðausturland: 24 milljónir króna.
Austurland: 20 milljónir króna.
Suðurland: 35 milljónir króna.???
Myndin: Undirritun samnings Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Berglind Kristinsdóttir starfandi framkv.stjóri S.S.S.