Vatnslagnir gáfu sig í Reykjanesbæ og vatn flæddi um götur
Vatnslagnir sprungu á tveimur stöðum í Reykjanesbæ í gær. Í gærmorgun gaf sig 300 mm kaldavatnsæð í Faxabraut ofan við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Vatnsæðin er ein af stofnæðum Reykjanesbæjar og varð Faxabrautin sem stórfljót um stund.
Vatn flæddi inn í bílskúr og kjallara við götuna og olli þar tjóni. Þá urðu all nokkrar skemmdir á götunni, þar sem jarðvegur grófst undan malbikinu og það lyftist og sprakk á nokkrum stöðum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, sem kölluð var til vegna málsins, fór æðin í sundur á þremur stöðum í götunni. Starfsmenn vatnsveitunnar voru þegar kallaðir til og lokuðu þeir fyrir rennsli í götunni. Þá var slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kallað út til að dæla vatni úr bílskúrnum og kjallaranum.
Sundmiðstöðinni í Keflavík var einnig lokað, enda ekkert kalt vatn að hafa, en stefnt var að því að opna á ný í hádeginu í dag.
Eftir hádegið í gær var svo tilkynnt um vatnsleka á Smáratúni í Reykjanesbæ. Þarna hafði farið í sundur vatnsæð í götunni og kom sprunga í götuna og flæddi vatn um hana. Engar skemmdir urðu í nágrenninu.