Vasaþjófur eða farandglæpamaður í Keflavík?
– brýnt að kæra til lögreglu og gefa lýsingu á manninum.
Vegfarandi um Hafnargötu í Keflavík varð fórnarlamb vasaþjófnaðar á föstudagskvöld. „Ég var rændur bæði síma og kreditkortum á Hafnargötunni í Keflavík. Honum tókst að losa úrið af mér en náði ekki að stela því. Alveg stórfurðulegur einstaklingur sem hagaði sér einkennilega og var mjög ágengur! Greinilega fagmaður!,“ segir í fésbókarfærslu þess sem varð fyrir glæpnum.
Talsverð umræða skapaðist um málið en þar kemur fram að meintur vasaþjófur talaði ekki orð íslensku né ensku. Var giskað á að hann væri grikki, tyrki eða frá löndum þar í kring.
Í einni færslu var bent á að sá sem hér væri á ferð gæti verið farand-glæpamaður nýkominn til landsins. Því er brýnt að kæra þetta til lögreglu og gefa lýsingu á manninum.