VARNIR GEGN HRYÐJUVERKUM
Varnaræfingin Norður Víkingur 99 hófst sl. laugardag en þátttakendur í henni að þessu sinni eru 3000 hermenn, þar af allir 2000 hermenn varnarliðsins. Norður Víkingur var fyrst haldin 1983 og í annað hvert skipti síðan. Breytingar hafa orðið á grunnhugmynd æfingarinnar frá því sem áður var á dögum kalda stríðsins. Nú eru Því ekki æfð viðbrögð við árás óvinaríkis heldur alþjóðlegum hryðjuverkum með það fyrir augum að tryggja öryggi almennings og mikilvægra staða.Áttahundruð óbreyttir borgarar koma frá Bandaríkjunum en þeir eru í varaliði hersins og sinna m.a. verkefnum sem þessum, fimmtíu koma frá Þýskalandi en auk þess taka Landshelgisgæslan og íslenska víkingasveitin þátt í æfingunni. Sérsveitir frá Bandaríkjunum og Þýskalandi gegna hlutverki andstæðinganna. Skotvopn eru hlaðin púðurskotum og notast er í flestum tilfellum við búnað sem byggir á lasertækni. Í flugkosti æfingarinnar eru m.a. sex Jaguar orustuvélar frá Bretlandi, fjórar F-15 orrustuvélar varnarliðsins og þyrlur af mörgum gerðum auk kafbátaleitarvéla varnarliðsins. Stjórnstöð hefur verið sett upp í grunnskóla varnarliðsmanna á Keflavíkurflugvelli en æfingin fer fram víða utan varnarsvæðis, m.a. í Helguvík. Þar gæta hermenn hafnarinnar sem er mikilvægur staður í vörnum landsins. Hliðarverkefni æfingarinnar er Norður Nágranni ´99 en í því eru 4 Chinook þyrlur notaðar til flutningsverkefna víða um land, m.a. á hálendinu.