Varnarmálastofnun tekin til starfa
Varnarmálastofnun Íslands var hleypt af stokkunum við hátíðlega athöfn í dag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, og Ellisif Tinna Víðisdóttir, nýráðinn forstjóri stofnunarinnar, kynntu hlutverk og komandi verkefni fyrir þingmönnum, ráðherrum og öðrum góðum gestum á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.
Verkefni Varnarmálastofnunar eru að mestu leyti rekstur íslenska loftvarnakerfisins, en meðal annarra starfsþátta má nefna þátttöku í samræmdu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu NATO, rekstur, umsjón og hagnýtingu öryggissvæða og mannvirkja sem og undirbúning og umsjón varnaræfinga hérlendis.
Starfsemi stofnunarinnar verður nokkur en hún mun telja um 50 starfsmenn og eru starfsstöðvar á Miðnesheiði, Helguvík, Bolafjall, Gunnólfsvíkurfjall og Stokksnes fyrir utan Keflavíkurflugvöll. Stofnunin heyrir undir utanríkisráðuneytið.
Í samtali við Víkurfréttir í dag sagði utanríkisráðherra að um tímamót væri að ræða. „Nú erum við sem sjálfstæð og fullvalda þjóð að taka algerlega yfir og sjá um okkar eigin varnarviðbúnað.“
Hún vísaði einnig þeim gagnrýnisröddum á bug sem telja þörfina á slíkri stofnun litla þar sem engin ógn steðji að landinu. „Þetta er aðallega spurning um að gæta að lofthelgi sinni og landhelgi þannig að það sé ekki litið á það sem opið rými og einskis manns land.“
VF-myndir/Þorgils