Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarmálastofnun lögð niður - 54 starfsmenn í óvissu
Föstudagur 4. desember 2009 kl. 23:10

Varnarmálastofnun lögð niður - 54 starfsmenn í óvissu

- og verkefni flutt til fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis


Fimmtíu og fjórir fastráðnir starfsmenn starfa hjá Varnarmálastofnun Íslands sem verður lögð niður á næsta ári. Af þessum starfsmönnum eru 47 starfandi í höfuðstöðvum stofnunarinnar á Ásbrú í Reykjanesbæ. Sjö starfsmenn eru starfandi við ratsjárstöðvar stofnunarinnar á Bolafjalli, í Stokksnesi og á Gunnólfsvíkurfjalli. Ekki kemur fram í tilkynningu utanríkisráðuneytisins hvað verður um þessa 54 starfsmenn.


Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu utanríkisríkisráðherra um að samræma niður-lagningu Varnarmálastofnunar og samþættingu verkefna hennar við hlutverk annarra opinberra stofnanana við áform um stofnun innanríkisráðuneytis.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hvort tveggja byggir á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir að Varnamálastofnun verði endurskoðuð í samræmi við áherslur í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland, og að lögfest verði sameining samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og dómsmála- og mannréttindaráðuneytis í innanríkisráðuneyti fyrir lok kjörtímabilsins.


Varnarmálastofnun verður hins vegar lögð niður þegar á næsta ári eins og fram kemur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Breytingum sem leiða af niðurlagningu hennar þarf því að ljúka fyrr og þær þurfa að rúmast innan óbreyttrar verkaskiptingar Stjórnarráðsins. Það felst m.a. í því að verkefni Varnamálastofnunar verða færð til þeirra borgaralegu stofnana sem næst standa verkefnum hennar í dag en jafnframt yrðu burðarás í fyrirhuguðu innanríkisráðuneyti. Samhliða þessu þarf að móta skýra framtíðarsýn um verkaskiptingu utanríkisráðuneytis og innanríkisráðuneytis í varnar- og öryggismálum.


Því mun verða skipaður starfshópur fimm ráðuneyta (forsætis-, utanríkis-, fjármála-, dóms- og mannréttinda-, og samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytis) til þess að undirbúa ofangreindar breytingar. Hópnum verður falin útfærsla eftir nánar skilgreindu umboði og stefnt að verklokum fyrir lok febrúar á næsta ári.


Með þessu skapast möguleikar á róttækri endurskipulagningu stofnana sem fara með öryggismál sem er til þess fallin að einfalda og skýra stjórnsýslulegt forræði málaflokksins. Verulegum fjármunum er í dag varið til öryggismála þjóðarinnar og breyting af þessu tagi er líkleg til að leiða til betri nýtingar á opinberu fé og auka skilvirkni stofnana. Jafnframt er þetta fyrirkomulag líklegt til þess að tryggja víðtæka sátt um öryggisstefnu Íslands og framkvæmd hennar sem eftir sem áður byggir á þeirri grunnforsendu að Ísland er og verður herlaus þjóð.


Umrædd breyting mun ekki hafa efnisleg áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar Íslands, s.s. þátttöku í starfi Atlantshafsbandalagsins, varnarsamninginn við Bandaríkin eða annað fjölþjóðlegt samstarf um öryggismál. Utanríkisráðuneytið mun eftir sem áður hafa forræði yfir utanríkispólitískum þáttum á borð við samskipti við NATO. Jafnframt verður með þessu skipting lagalegrar, stjórnsýslulegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar skýr á milli utanríkisráðuneytis og fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis.

-  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -  -

Varnarmálastofnun tók til starfa 1. júní 2008 og er yngsta stofnun íslenska ríkisins. Fjárheimildir stofnunarinnar námu alls um 1.230 milljónum króna á fjárlögum ársins 2009. Forstjóri Varnarmálastofnunar er Ellisif Tinna Víðisdóttir, lögfræðingur. Á myndinni hér að neðan má sjá höfuðstöðvar Varnarmálastofnunar Íslands á Ásbrú í Reykjanesbæ. Á minni myndinni hér að ofan er ratsjárstöð á Miðnesheiði en þrár aðrar slíkar eru reknar á Bolafjalli, í Stokksnesi og á Gunnólfsvíkurfjalli.



Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Oddgeir Karlsson.