Varnarmál: Suðurnesjamenn vænta upplýsinga frá stjórnvöldum
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í samtali við Ríkisútvarpið í kvöld að Suðurnesjamenn vænti þess að stjórnvöld upplýsi um hvaða verkefni séu eftir á vallarsvæðinu þegar starfshópur um atvinnumál vegna brotthvarfs hersins kemur saman á miðvikudag.
Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði starfshópinn þegar ljóst var að varnarliðið væri á förum. Í starfshópnum eru fulltrúar sveitarfélaganna og verkalýðsfélaganna og af hálfu ríkisvaldsins, ráðuneytisstjórar forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðuneytis.
Þau verkefni sem Árni segir að bíði úrvinnslu tengjast almennum frágangi á vallarsvæðinu, öryggisgæslu og innri landvörnum. Einnig segir hann að það verði að taka ákvörðun um hvar nýju þyrlum Landhelgisgæslunnar verði fundinn staður.
Frá þessu er greint á www.ruv.is