Varnarliðsmaður dæmdur
Varnarliðsmaðurinn sem sakaður er um að hafa stungið ungann suðurnesjamann í Hafnarstræti í Reykjavík í júní var dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Gæsluvarðhald dregst frá vistinni. Einnig var varnarliðsmaðurinn dæmdur til að greiða fórnarlambinu 800 þúsund krónur í miskabætur en farið var fram á 3 milljónir. Enn fremur þarf varnarliðsmaðurinn að greiða 900 þúsund krónur í málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun.
Í dómnum segir að þrjár af fimm hnífsstungum hafi verið lífshættulegar og hefðu hæglega getað orðið íslendingnum að bana ef hann hefði ekki komist undir læknishendur. Enn fremur kemur fram að ljóst sé að maðurinn hafi ekki verið einn um að ógna brotaþola en ekki hefur verið upplýst hverjir þeir voru.
Dómnum þótti ekkert koma fram sem benti til þess að varnarliðsmaðurinn hafi ætlað að ráða unga manninum bana en hann hafi beitt eggvopni, sem honum mátti vera ljóst að gæti valdið skaða, án þess að hugsa út í afleiðingarnar.
Gerandi kvaðst hafa beitt hnífnum í sjálfsvarnarskyni og krafðist sýknu á þeim forsendum að hnífurinn hafi verið notaður í nauðvörn eftir að hann hafi verið sleginn í andlitið með flösku. Ekki var orðið við þeirri kröfu.