Varnarliðsgóss boðið upp í Reykjanesbæ
Ákveðið hefur verið að gera breytingar á fyrirkomulagi við sölu á afgangsvörum varnarliðsins og starfsmanna þess vegna breyttra aðstæðna og verulegs samdráttar í sölu á varningi af þessu tagi. Breytingarnar felast í því að Umsýslustofnun varnarmála hættir starfsemi frá og með næstu áramótum. Mun verslun á Grensásvegi 9 verða lokað frá 30. nóvember næstkomandi. Frá þeim tíma verður öll umsýsla sem fylgir sölu á umfram-og afgangsvöru varnarliðsins og starfsmanna þess falin embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.Ekki náðist í Jóhann Benediktsson sýslumanns á Keflavíkurflugvelli vegna málsins nú eftir hádegið en Óskar Þórmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, sagði ljóst að uppboð á varningi frá Varnarliðinu muni framvegis fara fram í Reykjanesbæ. Bílar eru stærsti þátturinn í umsýslu með Varnarliðsvarning, en einnig fellur til ýmislegt annað sem Íslendingum þykir spennandi að eignast og þarf framvegis að sækja til Suðurnesja.
Myndin: Þegar þessir jeppar fara úr þjónustu Varnarliðsins verða þeir boðnir upp hjá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli. VF-mynd: Hilmar Bragi
Myndin: Þegar þessir jeppar fara úr þjónustu Varnarliðsins verða þeir boðnir upp hjá Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli. VF-mynd: Hilmar Bragi