Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarliðinu óheimilt að afnema ferðapeninga slökkviliðsmanna
Föstudagur 4. nóvember 2005 kl. 14:18

Varnarliðinu óheimilt að afnema ferðapeninga slökkviliðsmanna

Hæstiréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá febrúar sl. að starfsmannahaldi Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi verið óheimilt að afnema greiðslu ferðapeninga til slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli sem búa á Höfuðborgarsvæðinu.

Íslenska ríkið, sem var stefnt fyrir hönd Varnarliðsins, var dæmt til að greiða Landssambandi Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna 300.000 krónur í málskostnað og mun þurfa að greiða slökkviliðsmönnunum ferðapeningana afturvirkt frá 1. febrúar 2004 til dagsins í dag.

Deilt var um hvort varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hefði árið 2003 verið heimilt að segja upp greiðslu dagslegs rútufargjalds til slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Greiðslum þessum hafði verið komið á með ákvörðun kaupskrárnefndar árið 1955, en sú nefnd úrskurðar um starfskjör íslenskra starfsmanna varnarliðsins.

Rök íslenska ríkisins voru þau að greiðslur vegna ferðastyrks hafi verið uppsegjanlegar með þriggja mánaða fyrirvara þar sem þær hafi ekki verið eiginlegur hluti af kjarasamningum. Það féllst héraðsdómur ekki á og staðfesti Hæstiréttur þann dóm.

Var fallist á að varnarliðinu hefði ekki verið unnt að fella þessar greiðslur niður einhliða. Voru uppsagnirnar því dæmdar ógildar.

Verharð Guðnason, formaður Landssambands Slökkviliðs- og Sjúkraflutningamanna, sagði í samtali við Víkurfréttir í dag að þeir væru mjög ánægðir með niðurstöðuna.

„Þetta er mikil gleðistund fyrir okkur að vinna þetta réttlætismál. Við vorum bjartsýnir að svona færi, þar sem dómurinn í héraði var mjög afdráttarlaus en það er gott að þessu er lokið. Með þessum dómi er staðfest að þeir megi ekki segja upp launaliðum einhliða og nú munum við fara út í að innheimta þessa fjárhæð.“

Vernharð segir að um verulega upphæð sé að ræða, en fjöldi slökkviliðsmanna sem hafa orðið af þessum greiðslum er á bilinu 25 til 30.

Hér má sjá dóminn í heild sinni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024