Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 11. desember 2001 kl. 13:04

Varnarliðið veitir Olíufélaginu hf. ESSO viðurkenningu fyrir góða og örugga þjónustu

Varnarliðið veitti Olíufélaginu hf. ESSO viðurkenningu í gær fyrir örugga og góða þjónustu við Bandaríkjaher á árinu 2001. Dean M. Kiyohara, yfirforingi, afhenti Geir Magnússyni, forstjóra, viðurkenningarskjöld og heiðursskjal við athöfn í Knútsstöð á Keflavíkurflugvelli. Flotaforinginn vék í upphafi ávarps síns að björgunaraðgerðum við Snæfellsnes sl. föstudagskvöld og þakkaði starfsmönnum Olíufélagsins á Keflavíkurflugvelli sérstaklega fyrir þeirra þátt í að búa þyrlur Varnarliðsins skjótt og vel undir afar erfitt björgunarflug á strandstað Svanborgar SH-404 við Öndverðarnes.

Viðurkenning Varnarliðsins á rætur að rekja til árlegrar úttektar á bandarískum herstöðvum í Bandaríkjunum og utan Bandaríkjanna. Þar er kerfisbundið farið yfir rekstur, viðhald, umhverfi og starfsemi í herstöðvunum og kannað hvort settum reglum sé framfylgt. Herstöð í Norfolk fékk viðurkenningu fyrir bestu frammistöðuna í ár en herstöðin á Íslandi hreppti annað sætið. Bandaríkjaher þótti síðan efni til að veita Olíufélaginu hf. ESSO sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf á árinu 2001. Starfsmenn fyrirtækisins hafa í ár sett eldsneyti á yfir 10 þúsund flugvélar, skip, ökutæki og tæki í eigu Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins. Kiyohara, flotaforingi, sagði þá standa afar fagmannlega að málum og hirða um og halda við tækjum Bandaríkjahers í samræmi við ítrustu kröfur sem gerðar séu til slíkra verka.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024