Varnarliðið segir flugherinn ekki vera að taka við
Breyting á stöðu yfirmanns varnarliðsins þýðir ekki að flugherinn sé að taka við rekstri stöðvarinnar af flotanum. Þetta segir Robert S. McCormick nýr yfirmaður Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli en hann er ofursti í flugher Bandaríkjanna. Segir hann engar ákvarðanir hafa verið teknar um slíkar breytingar, enda háðar samráði íslenskra og bandarískra stjórnvalda.
Aðspurður um samdrátt í starfsemi Varnarliðsins sem verið hefur í fréttum að undanförnu og tengist breytingum á skipan Bandaríkjaflota í Evrópu segir McCormic að breytingarnar hér á landi séu í takt við minnkuð umsvif, enda sjái flotinn um rekstur þjónustustofnana Vanarliðsins. „Þetta bitnar þó ekki á skuldbindingum vegna varnarsamningsins og er í samræmi við bókun við varnarsamninginn sem gerð var árið 1996 þar sem segir að báðir aðilar muni sem fyrr leitast við eftir því sem við verður komið að draga úr kostnaði á varnarsvæðinu,“ sagði McCormic í samtali við Víkurfréttir.
Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins segir að yfirstjórn varnarliðsins sé svonefnd sameinuð herstjórn sem þýði að yfirmaður hennar geti verið úr öllum greinum Bandaríkjahers. Yfirmaðurinn heyri undir Evrópuherstjórnina og stjórni aðgerðum og samræmi störf þeirra eininga sem honum eru lagðar til. „Þessar einingar nefnast í einu lagi Varnarliðið á Íslandi, og eru flugher til loftvarna, flugdeild flotans til eftirlits með skipa og kafbátaferðum og flotastöðin sem annast rekstur varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og rekstur og þjónustu á öðrum varnarsvæðum. Starfið hefur verið í höndum sjóliðsforingja á undanförnum árum, en foringjar úr flugher og landher hafa einnig gegnt þessari stöðu,“ segir Friðþór
Myndir: Robert S. McCormic nýr yfirmaður Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi Varnarliðsins. VF-ljósmyndir/Hilmar Bragi og Jóhannes Kr. Kristjánsson.