Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 19. maí 2004 kl. 10:46

Varnarliðið rekur og ræður

Um 10 íslenskum starfsmönnum verður sagt upp störfum hjá arnarliðinu frá og með næstu mánaðamótum.
Flotastöð Varnarliðsins hóf í morgun að kynna fulltrúum stéttarfélaga þessar fyrirhuguðu breytingar.

Þá kom fram í tilkynningu frá varnarliðinu að uppsagnarfrestur starfsmanna sem sagt verður upp störfum er frá einum og upp í sex mánuði og verður þeim veitt aðstoð við aðlögun og atvinnuleit. Þeir sem leita vilja annarra starfa hjá varnarliðinu mun hljóta viðeigandi aðstoð og ráðgjöf. Þá býðst umræddum starfsmönnum að leita ráðgjafar vinnusálfræðings og aðstoðar ráðningarþjónustu í leit að starfi á almennum vinnumarkaði sér að kostnaðarlausu. Til að auðvelda leit að nýju starfi býðst þeim að fá leyfi án launaskerðingar í allt að einum starfsdegi á hverju tveggja vikna launatímabili. Þá verða starfsmenn undanþegnir mætingarskyldu síðasta mánuðinn miðað við þriggja mánaða uppsagnarfrest og hlutfallslega miðað við styttri uppsagnarfrest. Er þeim þá frjálst að ráða sig í vinnu annarsstaðar án launaskerðingar.

Nokkur ný störf verða til annars staðar hjá flotastöðinni á Keflavíkurflugvelli, en einnig er í athugun að nokkur störf Bandaríkjamanna verði skipuð íslenskum starfsmönnum á næstunni. Einnig hefur nú verið auglýst eftir umsækjendum vegna rúmlega tíu sumarstarfa í mötuneyti og á skrifstofum og eftir 6 iðnaðarmönnum í föst störf. Þá hafa um 20 störf skapast hjá nýju einkafyrirtæki sem nýlega hóf veitingarekstur í varnarstöðinni.

Umræddar ráðstafanir hafa verið kynntar íslenskum stjórnvöldum og eiga ekki að hafa áhrif á skyldur flotastöðvarinnar í tengslum við rekstur Keflavíkurflugvallar né þjónustu við varnarliðið. Þá snerta þær ekki varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna né umræður um framtíð varnarliðsins eða endurskoðun á viðbúnaði Bandaríkjahers á heimsvísu sem nú er til skoðunar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024