Varnarliðið og HS funda um heita vatnið
Varnarliðið hefur óskað eftir fundi með Hitaveitu Suðurnesja um miðja næstu viku þar sem til umræðu verður framtíð orkuviðskipta á varnarsvæðinu. Forsvarsmenn HS hafa ítrekað óskað eftir viðbrögðum frá bandarískum hermálayfirvöldum eftir að þau sögðu fyrirvaralaust upp samningi við HS um kaup á heitu vatni fyrir varnarsvæðið. Forsvarsmenn HS telja það vera samningsbrot
Varnarliðið hefur verið stærsti einstaki viðskiptavinur Hitaveitunnar en það kaupir um 13 þúsund mínútulítra á ári sem er talsvert mikið miðað við að sveitarfélögin á Suðurnesjum kaupa samtals tæpa 17 þúsund mínútulítra. Samkvæmt samningum getur VL aðeins minnkað vatnsskaupin um fjögur prósent á ári en ekki hætt þessum viðskiptum fyrirvaralaust.
Ekki er ljóst hvað hermálayfirvöld ætla sér í þessum efnum. Forstjóri Hitaveitunnar hefur bent þeim á að yfirgefnum húsum sé hætt við skemmdum séu þau ekki hituð upp en Bandaríkjamenn munu hafa ætlað sér að kaupa vatn til upphitunar á einstökum byggingum eftir að herinn fer af landi brott.
Fróðlegt verður að sjá hvað fyrrnefndur fundur kemur til með að skila en forstjóri Hitaveitunnar, Júlíus Jónsson, hefur tekið það skýrt fram að herinn verði að semja sig frá samningi þessum.