Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varnarliðið kemur í veg fyrir æfingar slökkviliðsmanna í Reykjanesbæ
Föstudagur 29. apríl 2005 kl. 22:54

Varnarliðið kemur í veg fyrir æfingar slökkviliðsmanna í Reykjanesbæ

Nýir slökkviliðsmenn í liði Brunavarna Suðurnesja geta ekki æft slökkvistörf í nýjum æfingabúðum slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja við gömlu sorpeyðingarstöðina við Hafnaveg, þar sem Varnarliðið mun ekki sætta sig við æfingarnar. Til stóð að hefja stóra æfingu slökkviliðsins í nýjum æfingabúðum Brunavarna Suðurnesja við gömlu sorpeyðingarstöðina í fyrramálið, laugardagsmorgun. Nú þarf hins vegar að finna æfingunni annan stað, vegna neikvæðra viðbragða Varnarliðsins.
Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa fengið veður af afstöðu Umhverfisdeildar Varnarliðsins í dag og að Varnarliðið heimili ekki slökkviliðsæfingar á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ. Hins vegar hafi hann þetta ekki skriflegt en á von á bréfi um málið í næstu viku. Slökkviliðsmenn ætli hins vegar að hafa vaðið fyrir neðan sig og færa því æfinguna á morgun annað, til að valda ekki óróa á meðal Varnarliðsins. Í stað þess að æfa í glænýju sérhönnuðu reykköfunarhúsi sem komið hefur verið fyrir á lóð gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar, þá verður æfingin flutt í gömlu steypustöðina á Fitjum og í eyðibýli milli Garðs og Keflavíkur.
Sigmundur hefði hins vegar kosið að þjálfa sína menn á svæði gömlu sorpeyðingarstöðvarinnar, sem sé ákjósanlegur staður til þjálfunar slökkviliðsmanna. Þar er til staðar mikill og góður búnaður og húsakostur til æfinga og þar sér Sigmundur fyrir sér framtíðaruppbyggingu í þjálfunarbúðum fyrir slökkviliðsmenn á Íslandi. Slökkviliðið beygi sig undir valdboð Varnarliðsins að þessu sinni en hins vegar á Sigmundur von á að með samstilltu átaki sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum fái eldur að loga að nýju í og við gömlu sorpeyðingarstöðina, til að hægt sé að veita slökkviliðsmönnum sem besta þjálfun.

Myndir: Frá flutningi nýja æfingahúsnæðisins frá smiðju í Garðinum og að gömlu sorpeyðingarstöðinni. Sérhannað hús til reykköfunar, sem nú er óheimilt að nota, vegna andstöðu Varnarliðsins. Neðri myndin er frá því að eldur var tendraður inni í húsinu við æfingu á dögunum. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson og Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024