Varnarliðið fjarlægir ekki reykdufl úr sjónum eftir æfingar
Síðustu daga hefur mátt sjá þyrlur Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli við æfingar úti yfir sjónum utan við Keflavík. Hefur reykduflum verðið kastað úr þyrlunum. Síðan hefur mátt sjá menn fara í sjóinn úr þyrlunum og þeim síðan bjargað aftur um borð. Óþrifnaður fylgir þessum æfingum Varnarliðsins þar sem ekki hefur sést til Varnarliðsins þrífa upp eftir sig duflin sem kastað er í sjóinn.
Á meðan umhverfissamtökunum Bláa hernum eru veitt verðlaun fyrir hreinsun hafna og strandlengjunnar er Varnarliðið skammt undan að varpa duflum í sjóinn, sem síðar reka upp í fjörur með viðeigandi sóðaskap.
Tómas Knútsson, talsmaður Bláa hersins, sagðist í samtali við Víkurfréttir vita til þess að Varnarliðið hefði gert samkomulag við íslensk stjórnvöld um þessar æfingar. Það væri hins vegar sárt að horfa upp á það að þessum reykduflum væri kastað í sjóinn fyrir allra augum á sama tíma og verið væri að verðlauna samtök eins og hans fyrir að hreinsa rusl úr hafinu.
Á vef Landhelgisgæzlunnar segir m.a. um reykduflin: Miklu magni reyk- og ljósdufla er varpað í sjó á hverju ári við björgunaraðgerðir en mest þó við æfingar í slíku. Merkjadufl þessi eru í sjálfu sér ekki hættuleg, en geta orðið það við vissar aðstæður. Við brunann myndast í mörgum tilfellum hvítur fosfór, sem tendrast sjálfkrafa við að komast í snertingu við súrefni andrúmsloftsins. Því er hættulegt að taka slík dufl og geyma!!! Ef duflin eru geymd þar sem þau ná að þorna, kemur að því fyrr eða síðar að það kviknar í þeim aftur og geta þá valdið eldsvoða og að auki er reykurinn við þær aðstæður eitraður.
Talsvert magn þessara dufla finnst hér við land á hverju ári. Tilkynna skal um slíkt til Landhelgisgæslu eða næstu lögreglustöðvar.
Mynd: Þyrla við æfingar utan við Keflavík í gær. Mynd: GIG