Varðskip flutti vaktskýli til Helguvíkur
Vaktskýli Landhelgisgæslunnar var flutt frá Faxagarði í Reykjavík til Helguvíkur með varðskipinu Þór síðdegis í gær. Þar með lauk 60 ára sögu vaktskýlis Landhelgisgæslunnar sem hefur hýst vaktmenn Landhelgisgæslunnar og allra síðustu ár starfsmenn Securitas við bryggjuaðstöðu í höfninni.
Skýlið víkur fyrir nýrri spennistöð sem til stendur að reisa við höfnina. Faxaflóahafnir stefna jafnframt á að byggja nýja vaktaðstöðu tengda spennistöðinni. Vaktskýlið var híft um borð í varðskipið Þór og vó 19 tonn með undirstöðum. Þrátt fyrir það fór ekki mikið fyrir því á afturþilfari Þórs.
Varanlegri viðveru vaktmanna Landhelgisgæslunnar í skýlinu á Faxagarði lauk fyrir fjórum árum en síðan þá hafa starfsmenn Securitas séð um vöktun svæðisins.
Vaktskýlið skipaði til fjölda ára stóran sess í starfsemi Landhelgisgæslunnar. Starfsmenn, fyrrverandi starfsmenn og velunnarar komu þar gjarnan saman og ræddu landsins gagn og nauðsynjar yfir kaffibolla.
Gamla vaktskýlinu verður fyrst um sinn komið fyrir í Helguvík.
Meðfylgjandi myndir tók Jón Páll Ásgeirsson, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni.