Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Varðskip fær milljón krónur á dag við tökur á Flags of Our Fathers
Föstudagur 12. ágúst 2005 kl. 21:27

Varðskip fær milljón krónur á dag við tökur á Flags of Our Fathers

Landhelgisgæslan hefur tekið að sér að aðstoða kvikmyndafyrirtækið Warner Bros og íslenska fyrirtækið True North með ýmsum hætti vegna töku á kvikmyndinni Flags of our Fathers, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni og birt er á vef Morgunblaðsins, mbl.is, nú í kvöld. Fyrirtækin leituðu til gæslunnar fyrir um það bil tveimur mánuðum og föluðust eftir því að hafa tvö varðskip úti fyrir Stóru Sandvík á Reykjanesi á meðan á tökunum stendur.

Landhelgisgæslan taldi víst að hægt yrði að leggja til eitt varðskip en bauðst til að gera það sem hægt yrði með góðu móti.

Gerður var samningur um leigu á gamla varðskipinu Óðni, sem nú er aðeins notað þegar varðskipin Ægir og Týr eru í viðgerð eða endurbótum. Einnig var samþykkt að annað varðskip kæmi að verkefninu ef önnur og brýnni verkefni Landhelgisgæslunnar kæmu ekki í veg fyrir það. Þess vegna kemur varðskipið Týr ef til vill til með að taka að einhverju leyti þátt í verkefninu á næstu dögum.

Fyrirvari var gerður við þátttöku Landhelgisgæslunnar þannig að varðskipin geta siglt í burtu um leið ef þörf er á og/eða lögregluaðgerðir krefjast þess. Ljóst er þó að varðskipin eru í Stóru Sandvík einnig af öryggisástæðum og munu áhafnir þeirra grípa inn í ef hættuástand skapast.
Landhelgisgæslan aðstoðaði kvikmyndafyrirtækin einnig með flutninga og geymslu á sprengiefnum og vopnum sem notuð eru í myndinni og að minnsta kosti einn yfirmaður hjá Landhelgisgæslunni er á launaskrá hjá Warner Bros sem tengiliður vegna varðskipanna á svæðinu.

Fyrir varðskipin fær Landhelgisgæslan um það bil eina milljón króna á dag en þau liggja að mestu við akkeri á meðan á tökunum stendur og eru notuð sem nokkurs konar leikmynd. Fyrirhugað er að verkefninu í Stóru Sandvík ljúki 17. ágúst næstkomandi og komu varðskipin þangað í dag, segir á mbl.is

Mynd: Varðskipið Óðinn úti fyrir Reykjanesi. VF-mynd: Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024