Varðskip á leið til bjargar fiskiskipi við Reykjanes
Varðskip Landhelgisgæslunnar er nú á leið suður fyrir Reykjanessskaga til að draga vélarvana fiskiskip í land. Gæslunni var tilkynnt um skipið út af Reykjanesi á þriðja tímanum í dag. Frá þessu er greint á Vísir.is.
Skipið er 70 tonna snurvoðabátur með fimm manna áhöfn. Engin hætta er á staðnum. Skipið bilaði upp úr hádegi og liggur fyrir akkerum stutt frá landi.
Fyrir um klukkustund varð ljóst að skipið kæmist ekki í land án hjálpar. Fragtskipið Laxfoss er á staðnum og bíður þar til varðskipið kemur til að draga skipið í land.
Ekki hefur verið ákveðið í hvaða höfn skipið verður dregið en veðráttan er þannig við Sandgerði að ólíklegt má telja að skipin fari þar inn.
Mynd úr safni.