Varð fyrir lyftara og úlnliðsbrotnaði
Lögreglunni á Suðurnesjum var tilkynnt um vinnuslys í vinnslusal fiskvinnslufyrirtækis í umdæminu um miðjan dag á fimmtudag. Þar hafði maður bakkað lyftara á starfsstúlku, sem var að salta þorsk í plastkör. Maðurinn var að færa til kör til að geta athafnað sig betur á lyftaranum, þegar óhappið varð.
Konan var flutt á slysadeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Hún reyndist vera úlnliðsbrotin , auk þess sem hún kenndi eymsla í fæti.