Varabæjarfulltrúi S-lista genginn í Sjálfstæðisflokkinn
– Hópur þekktra andstæðinga hefur skráð sig í Sjálfstæðisflokkinn
Hjörtur M Guðbjartsson, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ, er genginn í Sjálfstæðisflokkinn. Á fésbókarsíðu sinni segir hann: „Fékk þessar fínu móttökur á kjörstað Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ rétt í þessu. Þá er það afgreitt“.
Guðbergur Reynisson, formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur, vekur athygli á því í grein hér á vf.is í dag að „komin er upp sú staða að hópur þekktra andstæðinga Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hafa skráð sig í flokkinn til þess eins að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðismanna og hafa þannig áhrif á framboðslista þeirra. Sjá má á skrifum þessara manna að þeir eru ekki með framtíð Sjálfstæðisflokksins í huga. Þetta eru menn sem ætla sér að eyðileggja flokkinn innanfrá með einum hætti eða öðrum. Augljóst er að þetta er dæmi um siðleysi og er hvorki þeim né skoðunum þeirra til framdráttar“.
Hér að neðan má sjá skjámynd af fésbókarfærslu Hjartar frá því í gær.