Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 25. febrúar 2002 kl. 16:59

„Var orðinn úrkula vonar um að okkur yrði bjargað“

Ísfirðingurinn sem bjargaðist þegar Bjarmi VE fórst undan Þrídröngum á laugardag heitir Hilmar Þór Jónsson. Hann var útskrifaður af heilsugæslustöð Vestmannaeyja í morgun og dvelst nú í Keflavík þar sem hann hyggst hvíla sig og safna kröftum eftir mannraunir laugadagsins. Að sögn Hilmars, sem er á 25. aldursári, var hann staddur í matsal Bjarma að horfa á myndband þegar hann fann fyrir því að báturinn var að fara á hliðina. „Ég stökk strax upp og hljóp af stað til þess að kanna hvað væri á seyði. Þegar ég kom upp í brú var verið að sjósetja björgunarbátinn og um leið og hann varð tilbúinn stukkum við í hann,“ segir Hilmar. Hann segir að þegar þeir hafi verið komnir í björgunarbátinn hafi þeir baslað lengi við að koma honum frá skipinu án árangurs. Því hafi mastur skipsins dottið á björgunarbátinn og sprengt hann þegar Bjarmi fór alveg á hliðina.„Þegar björgunarbáturinn sprakk varð mér mjög brugðið en ég reyndi þó að halda stillingu minni til þess að geta komið mér upp á það sem var eftir af honum. Þar sat ég ásamt öðrum áhafnarmeðlimum þar til nokkru síðar þegar bátnum hvolfdi, þá var ekkert annað eftir en að hanga bara í gúmmítægjunum sem eftir voru og bíða björgunar. Mér er sagt að við höfum verið í sjónum í allt að tvær og hálfa stund, en ég veit minnst um það sjálfur. Allt tímaskyn fer fyrir ofan garð og neðan við svona aðstæður. Ég hélt mér bara í tægjurnar og hugsaði minn gang, velti fyrir mér lífinu og tilverunni og var orðinn úrkula vonar um að okkur yrði bjargað. Svo kom þyrlan og það er óhætt að segja að við höfum verið kátir þá,“ sagði Hilmar.

Þrátt fyrir að vel hafi gengið að koma áhafnarmeðlimunum þremur sem fundust, um borð í þyrluna, lést einn þeirra áður en hann komst til aðhlynningar. Hilmar og annar skipverji voru lagðir inn á heilsugæslustöðina í Vestmannaeyjum þar sem gert var að sárum þeirra. Hilmar segir ekkert hafa amað að honum líkamlega annað en kuldi, en eftir mikla vinnu starfsliðs heilsugæslunnar hafi tekist að koma í hann hita. Hann vill koma á framfæri þökkum til starfsfólks heilsugæslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og áhafnar þyrlunnar sem bjargaði þeim.

Hilmar segir að sér líði þokkalega miðað við aðstæður, en hann sé enn að átta sig á atburðum laugardagsins og vinna úr þeim. „Nú finnst mér mikilvægast að hitta fjölskyldu mína og ástvini. Þetta hefur verið erfið helgi en með þetta að baki ætla ég að reyna að hvíla mig ærlega og treysta sambandið við mína nánustu,“ segir Hilmar. Hann ætlar að dvelja í Keflavík fyrst um sinn en býst við því að koma til Ísafjarðar þegar líður að helginni þar sem hann mun slappa af í faðmi fjölskyldunnar og taka sér gott frí.

Texti: Bæjarins besta, Ísafirði
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024