Vantar orku fyrir stærri gagnaver
Suðurnesjalína 2 hamlar frekari stækkun og fjölgun gagnavera á Suðurnesjum
Gagnaverin á Fitjum og Ásbrú hafa ekki möguleika á að stækka og þeim mun ekki fjölga fyrr en Suðurnesjalína 2 verður að veruleika. Öll stækkunaráform eru í biðstöðu hjá þeim fyrirtækjum sem eru í þessum iðnaði.
Gagnaverin í Reykjanesbæ nota um 100 MW af raforku. Staðan er raunar þannig á Suðurnesjum í dag að ekki er hægt að koma meira rafmagni inn á svæðið vegna þess að ekki hefur orðið af áformum um Suðurnesjalínu 2 en vonandi sér fyrir endann á þeim málum en sveitarstjórnir á áhrifasvæði línulagnarinnar hafa haft Suðurnesjalínu 2 til umsagnar síðustu vikur.
Gagnaver eru mikilvægur hluti af hugverkaiðnaði á Íslandi og skapa þau ein og sér ríflega 8 milljarða í gjaldeyristekjur á ári. Auk fjölda starfa á uppbyggingartíma gagnavers skapar það á bilinu 3-5 bein og afleidd stöðugildi fyrir hvert megavatt af raforku sem nýtt er í rekstrinum, skrifar Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í Fréttablaðið nýverið.
Gagnaver á Íslandi laða til sín erlenda viðskiptavini sem sjá hag sinn í að nýta fyrirsjáanlegt, en ekki endilega lægra orkuverð en í nágrannalöndum, ásamt hagfelldu íslensku veðurfari til að að reka sinn tölvubúnað á skilvirkan hátt. Við Fitjar í Reykjanesbæ er að byggjast upp iðnaðarsvæði sem er sérstaklega skipulagt fyrir gagnaver. Þar er t.a.m. stutt í stóra aðveitustöð Landsnets.