Vantar morgunverðarstað á Reykjanesi fyrir árrisula ferðamenn
„Eftirspurn eftir morgunverðarstöðum á Suðurnesjum hefur aukist töluvert á síðustu árum, bæði frá einstaklingum og ferðaskrifstofum,“ segir Þuríður H. Aradóttir Braun, verkefnastóri hjá Markaðsstofu Reykjaness, en illmögulegt hefur verið fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda, að geta keypt sér morgunverð í sveitarfélögum á Suðurnesjum.
Þuríður segi þó einhverja þjónustuaðila hafa brugðist við þessu og opnað morgunverðarhlaðborðið fyrir gesti og gangandi. „Þar á meðal eru Hótel Grásteinn og A10 við Aðalgötu í Reykjanesbæ. Þá hefur veitingahúsið Vitinn í Sandgerði tekið á móti morgunverðarhópum eftir pöntunum. Eflaust eru fleiri aðilar sem bjóða uppá morgunverð, en það þyrfti að koma því einhvern veginn betur á framfæri.“
Spurð um hvað gæti legið að baki því að ekki sé kominn staður sem anni þessum markhópi segir Þuríður það eflaust liggja í því að fólk hafi ekki séð tækifæri í því. „Það viðhorf breytist vonandi miðað við aukningu ferðamanna á svæðinu og að förum að sjá aðila sem eru tilbúnir að þjónusta morgunumferðina. Ég hef heyrt af einum sem var að skoða þetta og vonandi verður eitthvað að því fyrr en seinna. Það liggja víða tækifæri á Reykjanesinu sem bíða eftir réttum aðila til framkvæmda,“ segir Þuríður.