Vantar fjármagn í Hljómahöllina
Fasteign ehf leitar að fjármögnunaraðila vegna Hljómahallarinnar. Hugsanlega þarf að breyta upphaflegum áætlunum um framkvæmdina vegna skorts á lánsfé.
„Það hefur engi ákvörðun verið tekin önnur en sú að halda áfram með framkvæmdina. Hins vegar höfum við í bæjarráði verið upplýst um að auðvitað er þungt um fjármagn. Fasteign hefur verið að leita að fjármögnunaraðila til að halda áfram með verkefnið en hefur ekki náð að ljúka því að fullu,“ segir Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Hann segir framhaldið velta á fjármögnuninni. Ef hún gangi treglega þurfi hugsanlega að skipta verkinu upp í áfanga.
„Það hafa engar ákvarðanir verið teknar aðrar en þær sem voru teknar fyrir rúmu ári síðan þegar við fórum af stað með verkefnið. Það er ekki búið að fresta neinu, en það er alls ekki ólíklegt fresta þurfi einhverjum hluta verksins. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það ennþá hvaða hluti það yrði,“ svarar Böðvar aðspurður um það hvort nú þegar sé búið að breyta áætlun verksins. Hann á von á því að málefni Hljómahallarinnar skýrist innan tíðar, jafnvel fyrir næstu mánaðamót.