Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vantar alltaf gæðablóð
Miðvikudagur 14. desember 2011 kl. 14:56

Vantar alltaf gæðablóð

„Suðurnesjamenn hafa venjulega verið mjög duglegir að gefa blóð þegar að blóðbílinn er á ferðinni um svæðið og hefur stór hópur vanið sig á að leggja Blóðbankanum lið.“ Erna Björk Guðmundsdóttir starfsmaður hjá Blóðbankanum sagði í samtali við Víkurfréttir að hins vegar þegar bíllinn var í heimsókn á Suðurnesjunum í gær þá hefðu þó komið aðeins færri en vanalega. „Ætli flensan hafi ekki sitt að segja með það,“ sagði Erna og bætti því við að margir iðnaðarmenn sem voru duglegir að heimsækja bílinn væru nú fluttir af landi brott og þar munaði um minna.

Hún segir jafnframt að fólk geti átt það til að gleyma að gefa blóð í amstri jólanna en alltaf væri þörfin jafnmikil. „Þessi jól eru okkur hagstæð ef svo mætti segja, það er í raun bara einn frídagur og vonandi hefur það eitthvað að segja, enda vantar alltaf fólk til að gefa blóð,“ Blóðbankinn er til húsa að Snorrabraut 60 í Reykjavík og eru Suðurnesjamenn sem eiga leið sína á höfuðborgarsvæðið hvattir til að kíkja í heimsókn. Næstu daga verður opið lengur en vanalega og er heitt kakó á könnunni og piparkökur á boðstólnum.

Annars má nálgast frekari upplýsingar á síðu Blóðbankans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024