Vantar 10 tonn af gúmmíkurli í Reykjaneshöll
Við úttekt á gervigrasinu í Reykjaneshöll kom í ljós að það vantaði u.þ.b. 10 tonn af gúmmíkurli í grasið. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt fjárveitingu upp á rúmar 2,3 milljónir króna sem verður nýtt til viðhalds á gervigrasinu.
„Það er mikilvægt upp á viðhald gervigrassins að bæta í það gúmmíi reglulega en því hefur ekki verið sinnt sem skyldi frá því það var lagt,“ segir Helgi Arnarson sviðsstjóri hjá Reykjanesbæ.
Helgi segir að gera þurfi ráð fyrir því í rekstri Reykjaneshallar að reglulega þurfi að bæta gúmmíkurli í gervigrasið. „Því hefur stundum verið haldið fram að það þurfi ekkert viðhald á gervigras, en það er mikill misskilningur,“ segir Helgi.