Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Vallarstjórinn svarar í símann hjá Grindavíkurbæ
Orri Freyr upptekinn í nýja starfinu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. febrúar 2024 kl. 17:07

Vallarstjórinn svarar í símann hjá Grindavíkurbæ

Hvar mun Grindavík spila heimaleiki sína í sumar?

„Það verður að sinna grasvöllunum í Grindavík áfram þó svo að ekki verði leikið á þeim í sumar, annars skemmast þeir,“ segir Orri Freyr Hjaltalín sem gegnir starfi vallarstjóra knattspyrnuvalla í Grindavík. Hann hefur þurft að stökkva í hin og þessi tilfallandi störf að undanförnu, m.a. að svara í símann í þjónustumiðstöðinni í tollhúsinu.

Orri Freyr lenti í alvarlegu vinnuslysi árið 2019 þegar hann var að vinna við löndun og heilt bretti af kössum með sjófrystum fiski hrundi yfir hann. Hann fór illa í baki en náði ótrúlega vel að jafna sig. Eflaust var samt gott fyrir hann að geta hætt í löndunarvinnunni í janúar í fyrra, og taka við sem vallarstjóri á Grindavíkurvelli. 

„Ég byrjaði í janúar í fyrra, er starfsmaður Grindavíkurbæjar og það sem ég sé um er knattspyrnuvellir Grindavíkur, Hópið sem er knattspyrnuhúsið okkar og svo sé ég líka um par þrjú golfvöllinn sem er í Grindavík og leiktækjasvæðið sem er vestan við íþróttahúsin, þar sem hoppubelgurinn er. Ástandið á völlunum er misjafnt, aðalkeppnisvöllurinn og Hópstúnið er í góðu lagi en æfingavöllurinn norðan við aðalvöllinn er mjög illa farið. Það á eftir að drónamynda hann en það eru sprungur þar. Hópið er mjög illa farið, þakið er sigið og sprungur í gólfinu, það lítur illa út með það. Mín vinna síðan 10. nóvember snerist um að sjá til þess að hiti og rafmagn væri á Hópinu en eftir að fleiri sprungur komu í ljós var svæðið afgirt og ég hef ekki fengið að fara þangað inn. Í dag er ég og starfsfólkið í íþróttahúsinu að hlaupa í tilfallandi störf hjá Grindavíkurbæ, þess vegna er ég t.d. hér í dag að leysa af á símanum í þjónustumiðstöð Grindavíkurbæjar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Heimavöllur Grindvíkinga?

Orri Freyr var fantagóður knattspyrnumaður á sínum tíma, lék um tíma sem atvinnumaður í Noregi en hann gekk til liðs við Grindavík frá Þór Akureyri, þaðan sem hann er, árið 2003. Komið hefur fram í fréttum að Grindavík stendur til boða að leika heimaleiki sína á sjálfum Laugardalsvellinum en Orri er ekki svo viss um ágæti þeirrar hugmyndar. „Ég er búinn að spila u.þ.b. 30 leiki á Laugardalsvellinum og ég held að það yrði ekki gott skref fyrir Grindavík að spila þar því allt í kringum völlinn er stærra en við erum vön og svo mun stúkan aldrei verða nema með brotabrot af þeim fjölda sem kemst fyrir. Ég hefði verið til í að spila á þessum frábæra velli fyrir fullri stúku en í þessi skipti sem ég spilaði mátti heyra saumnál detta, þannig verður aldrei hægt að búa til góða stemningu. Sjálfur völlurinn er líklega besti grasvöllur landsins en hann er mun stærri en við erum vön að spila á og ég held að erfitt verði að gera völlinn að okkar heimavelli. KSÍ á algerlega hrós skilið fyrir boðið og gott að vita af því en ég held að verið sé að skoða aðra möguleika. Ef ég fengi að stjórna þessu, myndi Grindavík spila sína leiki í Safamýrinni, sem var eitt sitt svæði Framara en er Víkingssvæði í dag. Hitt er svo annað mál að það verður erfitt að koma öllum leikjum meistaraflokkanna og allra unglingaflokkanna, fyrir á einum og sama vellinum svo líklega þurfum við að dreifast á einhverja staði. Sama hvað verður, ég mun halda minni vinnu áfram, aðstoða á þeim völlum sem okkur verður úthlutað en svo er mikilvægt að sinna völlunum okkar í Grindavík líka, það verður að hirða þá áfram, annars skemmast þeir,“ sagði Norðanstálið Orri að lokum.

Norðanstálið reffilegt í nýja starfinu.