Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Laugardagur 19. júní 1999 kl. 12:33

VALLARHVERFIÐ VILL HRAÐAHINDRUN

Íbúar í Vallarhverfinu í Reykjanesbæ afhentu Ellerti Eiríkssyni, bæjarstjóra í fyrradag undirskriftalista með nöfnum 130 íbúa þar sem lýst er yfir áhyggjum vegna aukins umferðarhraða og óskað eftir aðgerðum þess vegna. Íbúarnir benda á að ekki er aðeins aukinn umferðarhraði á Norðurvöllum heldur og veruleg aukning umferðar um götuna eftir að hún opnaði í hinn endann við Heiðarberg, þ.e. upp að Garð- og Sandgerðisvegi og Leifsstöð. Íbúarnir skora á bæjaryfirvöld að að setja merktar hraðahindranir á Norðurvelli á tveimur til þremur stöðum frá Vesturgötu að Heiðarbergi. Bent er á að einungis ein gangbraut er á Norðurvöllum en hún er staðsett við Vesturgötu. Skólabíllinn stöðvar á tveimur stöðum á götunni en engar gangbrautir eru þar. Gerð var könnun á hve mörg börn á aldrinum eins mánaða upp í 16 ára byggju í Vallar-hverfinu sem er norðan Vesturgötu, þ.e. Norðurvellir, Óðinsvellir, Bragavelir, Freyjuvellir, Ránarvellir, Sjafnarvellir og Þórsvellir. Flest eru börnin við sjálfa Norðurvelli eða 38 en samtals eru yfir 150 börn í öllu hverfinu. Ellert bæjarstjóri sagði að bréfið færi rétta boðleið og fengi sína umfjöllun en sagðist að öðru leyti ekki geta tjáð sig um framvindu mála. Margar umsóknir bærust um hraðahindranir og að mörgu þyrfti að hyggja áður en þær væru settar upp.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024