Valgerður Björk stýrir kosningabaráttu Beinnar leiðar

Valgerður Björk Pálsdóttir hefur verið fengin til að stýra kosningabaráttu Beinnar leiðar í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ í vor. Valgerður starfaði síðustu ár sem framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar og mun nú stýra framboði Beinnar leiðar ásamt því að taka sæti á lista. Uppstillinganefnd er að störfum og mun Bein leið tilkynna framboðslista sinn í lok mánaðar.

„Við í Beinni leið erum virkilega ánægð að fá til okkar unga heimakonu með reynslu af landspólitíkinni og erum fullviss um að kraftar hennar munu nýtast í komandi kosningabaráttu hér í Reykjanesbæ. Við erum ánægð með okkar störf í bæjarstjórn en verkefnið sem við tókum að okkur 2014 er ekki komið í höfn og viljum við endilega halda því áfram,“ segir Guðbrandur Einarsson oddviti Beinnar leiðar og forseti bæjarstjórnar í tilkynningu frá Beinni leið.