Vakinn harkalega af öldu
Lögreglunni á Suðurnesjum barst í nótt tilkynning þess efnis að mótorbáturinn Daðey GK-777 væri að leggjast að bryggju í Grindavíkurhöfn með slasaðan sjómann.
Maðurinn var sagður hafa fengið þungt högg á annað herðablaðið, þegar báturinn var á leið til veiða, en var samstundis snúið til lands þegar slysið varð.
Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann í Fossvogi. Hann mun hafa verið sofandi í koju, þegar þegar alda reið undir bátinn með þeim afleiðingum að maðurinn kastaðist til og lenti á öxlinni á kojubrúninni.