Vafinn inn í startkapla í annarlegu ástandi
Lögreglan á Suðurnesjum hafði snemma í fyrramorgun afskipti af tæplega fertugum karlmanni sem hafði sýnt af sér grunsamlega hegðun í Keflavík. Hafði hann verið að sniglast í kringum hús og reyndi svo að komast inn í bílskúr í eigu annars manns. Eftir það ranglaði hann að Keflavíkurkirkju og fitlaði við kirkjuhurðina. Þaðan lá leiðin að húsi í nágrenninu.
Lögregla svipaðist um eftir manni sem gæti passað við lýsingu sjónarvotta. Hann fannst skömmu seinna, enn á röltinu. Lögreglumenn tóku hann tali og reyndist hann þá mjög ölvaður og undarlegur í háttum. Að auki var hann með startkapla vafða um sig miðjan. Þar sem hann var allsendis ófær um að gera grein fyrir ferðum sínum var hann handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann var vistaður meðan hann var að ná áttum.