Vænir golfþorskar úr Garðsjónum - Sunna Líf búin að fara yfir 20 róðra í októberblíðunni
Í veðurblíðunni í október hafa sjómenn verið duglegir að nýta sér veðrið og sótt sjóinn sem aldrei fyrr. Valur Guðjónsson á trillunni Sunnu Líf KE 7 er búinn að fara yfir tuttugu róðra í mánuðinum og veitt vel.
„Þetta er bara hérna úti í Garðsjó, rétt hjá Leirunni. Maður lítur eftir golfvellinum í leiðinni áður og eftir að maður fyllir bátinn af golþorskum sem við erum að fá í netin núna,“ sagði Valur Guðjónsson, skipsstjóri á Sunnu Líf en hann og félagi hans voru að landa rúmu tonni þegar fréttamaður VF hitti þá á bryggjunni í Keflavík skömmu eftir hádegi í dag, laugardag. Valur sagði að það væri stór og góður þorskur í sjónum núna og aflabrögð góð. Það eina sem væri erfitt væri kvótinn, sem væri dýr. Fiskurinn fer ýmist á markað eða til fastra viðskiptavina. Valur spurði fréttamann af hverju han væri ekki í golfi í þessu fína veðri en hann er með merki Golfklúbbs Suðurnesja á stýrishúsinu á Sunnu Líf. Þeir eru ófáir sjóararnir sem stunda golfið en þeir stunda líka vel sjóinn. Nú gefur vel á báðum stöðum enda voru á sama tíma og Valur var að landa, tæplega hundrað kylfingar í golfi í Leirunni þennan síðasta dag október mánaðar. Valur sigldi framhjá þeim og horfði öfundaraugum á þá slá hvíta boltann, í aðeins hundrað metra fjarlægð frá bátnum.
Golþorskarnir, margir um tuttugu kíló, raðað í kar í löndun. Sunna Líf á neðri mynd í Keflavíkurhöfn í dag. Það er alltaf líf á bryggjunni. Takið eftir manninum með barnavagninn að ganga framhjá. VF-myndir/pket.