Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • „Vægast sagt martröð“
    Blóðug sprautan sem drengirnir stungu sig á.
  • „Vægast sagt martröð“
    Sprautan sem drengirnir stungu sig á.
Miðvikudagur 7. september 2016 kl. 11:10

„Vægast sagt martröð“

- segir foreldri barns sem stakk sig á sprautunál

Sex drengir á aldrinum 4 til 5 ára þurftu að verja síðasta laugardegi á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í blóðrannsóknum eftir að a.m.k. tveir úr hópnum höfðu stungið sig á blóðugri sprautunál við leiksvæði í Innri Njarðvík. Foreldri eins af drengjunum lýsir atvikinu sem martröð. Foreldrar drengjanna séu óttaslegnir og framundan eru bólusetningar og fleiri blóðprufur á drengjunum.

Drengirnir sex voru að leika sér á leikvelli í enda Hamradals í Innri Njarðvík sl. laugardag og fóru einnig inn í nýbyggingu við Leirdal, sem stendur við leikvöllinn. Þar fundu drengirnir m.a. sprautu með nál.

Skylmingaáhugi er mikill hjá drengjunum og þeir fóru því að leika sér með sprautuna og notuðu hana í skylmingum þar sem a.m.k. tveir hlutu stungusár.

Upp komst um málið þegar sprautan fannst í forstofu heima hjá einum drengnum. Þá var farið í að grennslast fyrir um hvaðan sprautan kom og drengirnir spurðir út í málið. Drengirnir vísuðu á staðinn sem var í nýbyggingu sem stendur við Leirdal og er kölluð draugahúsið hjá þeim sem þar búa í kring, enda staðið lengi ófrágengin.

Farið var með drengina á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þar gengust allir undir blóðprufur þar sem leitað er eftir smiti vegna lifrarbólgu B og C, ásamt HIV. Þá gengust þeir einnig undir bólusetningu við lifrarbólgu B en ekki er hægt að bólusetja við lifrarbólgu C eða HIV.

Móðir eins af drengjunum sagði í samtali við Víkurfréttir að það hafi verið mikið grátið á sjúkrahúsinu. Fyrsta blóðrannsókn hafi hins vegar leitt í ljós að þeir hafi ekki smitast. Hins vegar þurfi að fara fram önnur blóðrannsókn síðar, sem og fleiri bólusetningar.

Móðirin sem Víkurfréttir ræddu við segir að laugardagurinn hafi verið vægast sagt martröð fyrir fjölskyldur drengjanna. Um er að ræða fimm fjölskyldur sex drengja á aldrinum 4-5 ára, eins og áður segir.

Þegar farið var í nýbygginguna við Leirdal, þar sem drengirnir fundu sprautuna með nálinni, þá fundust þar einnig bjórdósir, sígarettur og dósir sem höfðu verið notaðar sem lón til hassreykinga.

„Það er skelfilegt að þetta sé svona inni í miðju íbúðahverfi og við leikvöll barnanna,“ sagði móðirin við Víkurfréttir.

Atvikið hefur verið tilkynnt til lögreglu. Hún hafði samband við eiganda húsnæðisins sem hefur neglt plötur fyrir op þannig að ekki á að vera hægt að komast þar inn.

Þá hefur barnaverndaryfirvöldum einnig verið tilkynnt um atvikið.

Leikvöllurinn við enda Hamradals í Innri Njarðvík. VF-mynd: Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í þessari ókláruðu byggingu við Leirdal fundu 4-5 ára drengir blóðuga sprautu með nál og a.m.k. tveir þeirra stungu sig á nálinni. Þarna inni voru einnig svokölluð hasslón, bjórdósir og sígarettur.

Þessi Coke-dós hafði verið notuð til að reykja hass.