Útvarpssendi Kanans stolið
Útvarpssendi útvarpsstöðvarinnar Kanans, sem staðsettur var í Bláfjöllum, hefur verið stolið. Starfsmenn Kanans sem fóru í Bláfjöll í dag til að kanna hvort sendirinn hefði verið tekinn úr sambandi gripu í tómt. Sendirinn hafði verið skrúfaður niður og fjarlægður.
Sendirinn var í eigu Kanans og kom til landsins fyrir þremur vikum síðan. Hann sendi út á tíðninni FM 100,5 en Kaninn fékk tíðninni úthlutað af Póst- og fjarskiptastofnun þegar Lýðvarpið hætti útsendingum. Lýðvarpið hafði verið með sendi á sama stað í Bláfjöllum.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Einar Bárðarson, útvarpsstjóri Kanans, að þjófnaðurinn hafi verið tilkynntur til lögreglunnar. Einar segist hafa sterkan grun um hverjir hafi sendinn undir höndum í dag og taldi að lögreglan myndi sækja hann í dag.
Einari er ekki skemmt og segist muni sækja þetta mál af hörku.
Mynd úr Bláfjöllum af www.ferlir.is