Útvarpsfikt endaði úti í móa
Bílvelta varð á Garðvegi síðdegis í gær. Ökumaður slapp án meiðsla. Viðkomandi kvaðst hafa verið að fikta í útvarpinu og misst við það stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar og valt.
Þá hafði annar ökumaður ekið bifreið sinni á vegrið milli akreina á Reykjanesbraut en var horfinn af vettvangi þegar lögreglumenn á Suðurnesjum komu á staðinn. Þeir höfðu upp á honum og kvaðst hann finna til verkja eftir óhappið. Vegriðið skemmdist talsvert og bifreiðin var fjarlægð með dráttarbifreið.
Fleiri umferðaróhöpp hafa orðið í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á undanförnum dögum en engin þeirra stórvægileg.