Úttekt á verkferlum Reykjanesbæjar við kísilverið
Samþykkt var í Bæjarráði Reykjanesbæjar í morgun að fram fari úttekt á þeim verkferlum sem voru viðhafðir hjá Reykjanesbæ í samskiptum sveitarfélagsins við United Silicon. Slík úttekt nái bæði til samskipta embættismanna við fyrirtækið en einnig til kjörinna fulltrúa. Þá samþykkir bæjarráð einnig að slík úttekt fari einnig fram hjá Reykjaneshöfn. Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Beinnar leiðar lagði tillöguna fram.
Greinargerð
sem fylgdi tillögunni:
Í nýútkominni stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem beint var að stofnunum ríkisins, voru gerðar ýmsar athugasemdir við samskipti ríkisstofnana við fyrirtækið. Eftirliti hafi verið ábótavant og verksmiðjan hafi fengið að hefja starfsemi áður en lokaúttekt hafði farið fram. Þá gerir skipulagsstofnun einnig athugasemdir við þátt Reykjanesbæjar sem átti að hafa eftirlit með því að byggingar væru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Það liggur fyrir að misbrestur hafi verið á því og í því ljósi telur bæjarráð eðlilegt að fram fari úttekt á öllum samskiptum Reykjanesbæjar og United Silicon.
Mikilvægt er að þar komi m.a. fram:
Hvernig kynningu framkvæmdaraðila gagnvart stofnunum bæjarins hafi verið háttað og um leið hvernig var þeim upplýsingum er fram komu á þeim kynningum miðlað áfram til kjörinna fulltrúa og bæjarbúa?
Hvernig var staðið að fýsileikakönnunum verkefnanna af hendi bæjaryfirvalda áður en ákvarðanir voru teknar?
Hverjir gerðu þær kannanir og hver var menntun þeirra með tilliti til eðlis og umfangs verkefnanna?
Hvernig var skipulagsvinnu af hálfu stofnana bæjarins háttað? Voru þau verkefni unnin af stofnunum bæjarins eða var þeim útvistað til annara aðila? Hafi svo verið, þá til hverra og hver var forsögn stofnanna bæjarins um úrlausn þeirra verkefna og hver bar ábyrgð á samskiptum fyrir hönd bæjarins?
Var á einhverjum tímapunkti í ákvarðana- eða skipulagsferlinu undirskrifaðir samningar er lutu að fjárhagslegum skuldbindingum fyrir hönd bæjasjóðs, án þess að bæjarstjórn sem æðsta stjórnvald bæjarins hafði fjallað um þær áður, eins og þó er krafist í 5. lið 1. mgr. 58. gr. sveitarstjórnarlaga en þar segir:
„„Einvörðungu sveitarstjórn getur tekið ákvarðanir um málefni sem varða verulega fjármál sveitarfélagsins. Til slíkra málefna teljast m.a. ákvarðanir um eftirtalin atriði séu ekki gerðar beinar undantekningar þar á með lögum:
5. lán, ábyrgðir eða aðrar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélags,“
5. Uppfyllti byggingarleyfi USI öll þau skilyrði er krafist er við útgáfu byggingaleyfis, skv. lögum um mannvirki nr. 160/2010?
Uppfyllti útgefandi byggingarleyfis eftirlitsskyldu og úttektir sína í samræmi við 16. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010? þar sem kveðið er á um að byggingarfulltrúa, útgefanda byggingarleyfis beri að annast eftirlit með því að hönnun og úttekt sé í samræmi við lög og reglugerðir.