Útsvarshækkunin greidd í ágúst 2016
Útsvarshækkun Reykjanesbæjar nú um áramótin sem nam 3,6% (úr 14,52% í 15,05%) mun ekki koma til innheimtu hjá íbúum fyrr en í ágúst árið 2016, við birtingu opinberra gjalda.
Ríkið innheimtir meðaltals útsvarsálagningu hjá öllum sveitarfélögum sem er 14,44% en flest sveitarfélög innheimta hærra gjald og aðeins örfá lægra. Mismunurinn er gerður upp við álagningu opinberra gjalda í ágúst ár hvert. Þá þurfa þeir íbúar sem búa í sveitarfélagi með hærra gjald að greiða mismuninn og þeir íbúar sem búa við lægra gjald fá greitt til baka, að því er kom fram hjá Skúla Eggeri Þórðarsyni skattstjóra í samtali við Víkurfréttir. Íbúar Reykjanesbæjar þurfa því að gera ráð fyrir því að þessi hækkun kemur ekki til innheimtu hjá þeim fyrr en í ágúst 2016.
Reykjanesbær fær þó hækkunina á útsvarinu strax í kassann því ríkið, sem er innheimtuaðili, skilar öllu gjaldinu strax þó innheimta hjá bæjarbúum taki lengri tíma.
Dæmi um hækkun á útsvari til einstaklings sem er með 350 þús. kr. í mánaðarlaun nemur rúmum 22 þús. króna á ári eða 1855 kr. á mánuði. Hjón með um 700 þús. kr. greiða því um 45 þús. kr.
Fasteignaskatturinn innheimtur strax
Hækkun á fasteignaskatti er þó komin í gagnið því hún er framkvæmd strax af bæjarfélaginu. ASÍ sendi út fréttatilkynningu í vikunni um álagningu fasteignaskatts hjá sveitarfélögum. Hækkunin er mest hjá Reykjanesbæ eða 67%. Fer úr 0,03 í 0,05% en sveitarfélagið var áður meðal þeira bæjarfélaga sem innheimtu hvað lægsta fasteignagjaldið. Nú er það í hópi meðal flestra hér á landi.
Ef miðað er við eign upp á 25 millj. kr. þá nemur hækkunin á ári hjá íbúa á Reykjanesi um 50 þús. kr.
Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar, sagði í viðtali við Bylgjuna að skattahækkanir væru ekki neitt fagnaðarefni. Ekki væri óalgengt að hækkun útsvars og fasteignaskatts næmi um 100 þús. kr. á heimili.