Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Útsvar mun ekki hækka í Reykjanesbæ
Mánudagur 6. desember 2004 kl. 16:47

Útsvar mun ekki hækka í Reykjanesbæ

Á síðasta bæjarráðsfundi Reykjanesbæjar var lagt til að álagningarhlutfall útsvars og fasteignagjalda verði óbreytt á árinu 2005 að undanskyldu sorphirðugjaldi sem hækki í kr. 5.100 úr kr. 4.900. Utsvarsprósentan yrði því áfram í 12.7% en ekki hækkuð upp í 13.03% sem er löglegt hámark.

Var tillagan samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutans, en Jóhann Geirdal og Ólafur Thordersen, Samfylkingu, sátu hjá og bókuðu að þeim þætti óráð að nýta ekki tekjumöguleika sveitarfélagsins að fullu meðan bæjarsjóður er rekinn með tapi ár eftir ár.

Árni Sigfússon, bæjartjóri, sagði í samtali við Víkurfréttirað þeir hefðu ákveðið að fylgja ekki fordæmi annarra sveitarfélaga sem hafa verið að hækka álögur á þegna sína að undanförnu. Þau hafa vísað til útgjaldaaukningar vegna launahækkana kennara sem eina stærstu orsökum hækkana.

„Vissulega þýða kennarasamningarnir aukinn kostnað en við þurfum ekki að leggja 200 milljóna króna skatt á bæjarbúa til að mæta því,“ segir Árni og bætir því við að eignarstaða bæjarins sé nægilega sterk til að hægt sé að halda áfram uppbyggingu áfram.

Árni sagði að lokum að hann hefði trú á því að fólkið í bænum væri ekki hlynnt frekari skattlagningum.

„Skattahækkanir eru auðveld leið í pólitík, en við munum fara erfiðari leiðina. Við trúum því að heillavænlegra sé að Reykjanesbær marki sér sérstöðu fyrir lága skatta og góða þjónustu. Þannig getum við laðað fólk til bæjarins og það skilar tekjum til bæjarsjóðs.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024