Útsvar Grindvíkinga lækkar í 14,28
Bæjarstjórn Grindavíkur samþykkti á fundi sínum í vikunni að lækka álagningarhlutfall útsvars um 0,20% eða niður í 14,28%. Þá voru samþykktar álagningarreglur fasteignagjalda fyrir næsta ár en hún felur í sér óbreytt hlutföll frá árinu 2012 að því undanskildu að vatns-og fráveitugjöld lækka úr annarsvegar 0,14% og hinsvegar 0,13 í 0,11% af fasteignamati. Sorphirðu-og sorpeyðingargjöld hækka samtals um 1.210 kr. á ári og aukavatnsgjald hækkar úr 15 í 16 kr./m3.
Þá var samþykkt þjónustugjaldskrá fyrir árið 2013. Almennt hækka gjaldskrár um 5% í samræmi við verðlagsbreytingar. Greiðsluþátttaka foreldra í skólamáltíðum grunnskóla verður 60% af innkaupsverði. Áætlað er að innkaupsverð frá Skólamat verði um 540 kr. frá 1. janúar 2013, þannig að greiðsluþátttaka foreldra verði um 325 kr.
Bæjarstjórn samþykkti tillögu hafnarstjórnar um breytingu á þjónustugjaldskrá Grindavíkurhafnar fyrir árið 2013. Almennt hækkar gjaldskráin um 5% í samræmi við verðlagsbreytingar, en aflagjöld verði óbreytt.
Tekjuviðmið 2013 vegna afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignaskatti og fráveitugjaldi voru jafnframt samþykkt. Viðmiðin hækka um 5% frá árinu 012.