Útskrift í Sjávarakademíunni
Nýlega útskrifuðust nemendur af vorönn úr Sjávarakademíunni en hún er samstarfsverkefni Fisktækniskóla Íslands og Íslenska sjávarklasans og fer kennsla fram í Húsi sjávarklasans við Gömlu höfnina í Reykjavík.
Námið er á framhaldsskólastigi og mun að sögn Ólafs Jón Arnbjörnssonar, skólameistara Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, vonandi festa sig í sessi sem valmöguleiki fyrir þá sem vilja kynnast bláa hagkerfinu betur.
Nemendur kynntu lokaverkefni sín fyrir kennurum, nemendum og stjórnendum og var að sögn Ólafs frábært að sjá hvað það eru mörg tækifæri innan bláa hagkerfisins og hvað nemendur voru fljótir að grípa þau. Einnig hvað hópurinn var meðvitaður um vitundarvakningu á umhverfismálum og voru búin að hugsa viðskiptahugmyndirnar sínar vel til enda með sjálfbærni í huga.
Þetta var í annað skiptið sem boðið er upp á námsleiðina í fullu annarnámi en markmið Sjávarakademíunnar er að efla þekkingu og áhuga á stofnun fyrirtækja og nýsköpun sem tengist bláa hagkerfinu.
„Nám í Sjávarakademíunni er mjög góð viðbót fyrir annars fjölbreytt nám í Fisktækniskóla Íslands,“ segir Ólafur Jón.
„Þetta var frábær hópur sem fer frá okkur og erum við viss um að þau eiga eftir að gera góða hluti í framtíðinni. Viðskiptahugmyndirnar sem nemendurnir kynntu voru afar áhugaverðar og hlakka ég til að sjá þær komast í framkvæmd á næstu misserum,“ segir Berta Danielsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans og leiðbeinandi Sjávarakademíunnar.