Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 29. janúar 1999 kl. 22:11

ÚTSENDINGASTYRKUR LJÓSVAKAMIÐLA:

Bætt örbylgja á Suðurnesjum -hjá Íslenska útvarpsfélaginu Varanleg lausn mun að öllum líkindum vera komin fyrir örbylgjusendingar Íslenska útvarpsfélagins til Suðurnesja en nýlega var sett upp endurvarp á fjallinu Þorbirni við Grindavík sem hefur það hlutverk að koma örbylgjusendingum til endurvarpans sem er í stóru mastri ofan Eyjabyggðar í Keflavík. Hjá Ríkisútvarpinu er gert ráð fyrir stóraukinni fjárfestingu í sendum og endurvörpum víða um land til að bæta mótttökuskilyrði en þó hefur ekki verið gefið út sérstaklega hvað verði gert á Suðurnesjum og þá hvenær. Þetta kemur fram í svörum forráðamanna Íslenska útvarpsfélagsins og Björns Bjarnasonar, menntamálaráðherra til Ágústs Einarssonar, þingmanns sem vakti athygli á lélegum útsendingarstyrk víða á Suðurnesjum á Alþingi ekki alls fyrir löngu. Ályktað var um þetta hagsmunamál Suðurnesjamanna á tveimur síðustu aðalfundum Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Í framhaldi af því hefur Ágúst Einarsson óskað eftir skýringum hjá forráðamönnum Íslenska útvarpsfélagsins og RÚV. Í fyrirspurn hans á Alþingi sagði hann m.a. að ófremdarástand væri víða á Suðurnesjum í þessum málum, sérstaklega í Grindavík og Vogum. Þá væru „dauðir“ blettir víða í Reykjanesbæ þannig að oft „snjóar“ á sjónvarpsskjám. Einnig heyrðist víða illa í útvarpi. Björn Bjarnason, menntamálaráðherra sagði m.a. í svari sínu að ákvarðanir um framkvæmdir, endurnýjun og viðhald í dreifikerfi Ríkisútvarpsins hafi dregist á síðasta ári vegna samningaviðræðna við Landssíma Íslands um rekstur dreifikerfis Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir að verulegur hluti stofndreifingar verði héðan í frá um ljósleiðara Landssímans sem mun þýða að móttökuskilyrði munu batna og gæði sömuleiðis. Alls er áætlað að verja um 175 millj. kr. á næstu fimm árum til endurnýjunar á sendum og endurvarpskerfi í dreifikerfi Ríkisútvarpsins. Um 80% þeirra fjárhæðar mun verða varið til senda og endurvarpa í dreifbýli. Aðalsendar Íslenska útvarpsfélagsins dreifa dagskrá Stöðvar 2 og Sýnar og hafa gæði frá þeim verið góð á Suðurnesjum nema hvað móttökustyrkur í Vogum er helst til lítill. Að sögn Hannesar Jóhannssonar, tæknistjóri ÍÚ geta íbúar þar nýtt sér örbylgjuna. Ekki hafa allir geta nýtt sér örbylgjuna á Suðurnesjum vegna lélegra móttökuskilyrða sem nú eiga að vera orðin betri í kjölfar þess að sendir var settur upp á Þorbirni. Dreifiaðferð með örbylgju er líkt við kapal í loftinu en ÍÚ dreifir m.a. dagskrá Fjölvarps og Bíórásarinnar á henni og þá eru einnig á örbylgju nýjar stöðvar, Skjár 1 og Áttan.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024