Útséð með samninga fyrir morgundaginn
- Viðræður við kröfuhafa standa enn
Reykjanesbær mun ekki ná samkomulagi við kröfuhafa sína um niðurfellingu skulda fyrir bæjarstjórnarfund sem fram fer á morgun, þriðjudag. Frá þessu er greint á vef RÚV. Þar er haft eftir Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, að óljóst sé hvort tillaga um skipun fjárhaldsstjórnar verði rædd á fundi bæjarstjórnar á morgun.
Á fundi bæjarstjórnar fyrir tveimur vikum var samþykkt að fresta afgreiðslu á tillögu bæjarráðs um fjárhaldsstjórn eftir að kröfuhafar sendu bréf rétt fyrir fundinn með þeim tíðindum að enn væri vilji til að semja um niðurfellingu skulda. Viðræður fulltrúa Reykjanesbæjar og kröfuhafa halda áfram. Það mun svo ráðast af viðræðum í dag og á morgun hvort bæjarstjórn fresti afgreiðslu á tillögu um fjárhaldsstjórn og haldi viðræðum áfram, eða slíti þeim og afgreiði tillöguna.