Útlendingur stal dýrum varningi í fríhöfninni
Erlendur karlmaður var stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sl. sunnudag vegna gruns um að hann hefði látið greipar sópa í fríhöfninni. Hann átti þá bókað flug til London. Lögreglumenn á Suðurnesjum handtóku manninn og fluttu hann á lögreglustöð. Í stórri íþróttatösku sem hann hafði meðferðis var ýmis varningur sem talinn var vera þýfi svo sem átta karton af Malboro sígarettum, átta ilmvatnsglös, tvenn Bose quiet 35 ll heyrartól og Hugo Boss fatnaður. Verðmæti varningsins var rúmlega 245 þúsund krónur.
Við skýrslutöku á lögreglustöðinni í Keflavik neitaði maðurinn öllum sakargiftum í fyrstu en kvaðst hafa keypt varninginn. Síðar í vikunni var svo tekin önnur skýrsla af honum og þá játaði hann þjófnaðinn á ofangreindum munum.