Útivistarátak í Reykjanesbæ
Nú þegar haustið heldur innreið sína og vetrarstarf barna okkar komið í fullan gang, viljum við hjá Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar enn og aftur minna á útivistartímann og forvarnargildi hans.„Börn 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu að sama skapi ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“ (57.gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna)Eins og undanfarin ár munu lögregla, barnaverndaryfirvöld og útideild, standa saman að ÚTIVISTARÁTAKI og væntum við góðs samstarfs við ykkur foreldra í því sambandi. Framkvæmd útivistarátaks verður með svipuðum hætti og áður. Samband er haft við foreldra þeirra barna sem eru úti eftir löglegan útivistartíma og þeir beðnir að sækja börnin sín í athvarf útideildar. Áhersla er lögð á að foreldrar sæki börn sín sjálfir. Til að fylgja hverju átaki eftir sendir Fjölskyldu- og félagsþjónustan foreldrum barna sem afskipti hafa verið af, bréf þar sem útivistartíminn er áréttaður.Það er staðreynd að sú markvissa vinna sem lögð hefur verið varðandi útivist barna, hefur skilað árangri. Útivistartíminn er nú almennt viðurkenndur við skipulag, skóla, íþrótta- og æskulýðsstarfs, hjá bíóhúsunum og ekki síst meðal ykkar foreldra, en með samstilltu átaki þeirra fullorðnu, læra börnin best að bera virðingu fyrir útivistartímanum. Þetta er ánægjuleg þróun ekki síst vegna þess að rannsóknir sýna að flest börn byrja neyslu áfengis og ólöglegra vímuefna eftir að útivistartíma lýkur og að ofbeldi meðal barna á sér oftast stað eftir kl. 22:00.Foreldrar stöndum saman og búum börnum okkar gott og öruggt umhverfi. Starfsfólk Fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar