Útihús að Ásláksstöðum brunnu til grunna

Útihús við eyðibýlið Ásláksstaði á Vatnsleysuströnd brunnu til grunna í eldsvoða í dag. Íbúðarhúsið að Ásláksstöðum er menningarminjar en það er byggt úr viði sem var í skipinu Jamestown sem rak á fjörur í Höfnum árið 1881.
 
Það var klukkan rúmlega þrjú í dag sem slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað út að Ásláksstöðum ásamt lögreglu. Þegar slökkvilið kom á vettvang voru útihúsin alelda og ljóst að þeim yrði ekki bjargað. Eldur náði ekki að berast í sjálft íbúðarhúsið.
 
Ekkert rafmagn er á bænum, sem er eyðibýli eins og áður segir. Allt bendir því til íkveikju. Lögregla fékk ábendingar um mannaferðir og bifreið við húsið í dag og óku lögreglumenn m.a. um Vatnsleysuströnd í leit að bifreiðinni.
 
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja sendi dælubíl og tankbíl á vettvang og lögregla var einnig fjölmenn.
 
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi á vettvangi brunans í dag.