Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Úthlutun 77 lóða í nýju hverfi í Grindavík
Frá gatnagerð í Hlíðarhverfi í Grindavík. VF-myndir: Jón Steinar Sæmundsson
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 19. nóvember 2021 kl. 06:42

Úthlutun 77 lóða í nýju hverfi í Grindavík

Stefnt er að afhendingu lóðanna eftir tvo mánuði

Opnað hefur verið fyrir lóðarumsóknir í nýju Hlíðarhverfi sem mun rísa austast í Grindavík en senn líður að verklokum gatnagerðar á fyrsta áfanga hverfisins en áætlað er að verkinu ljúki í desember.

Á svæðinu er að mestu gert ráð fyrir lóðum fyrir íbúðarhúsnæði, en auk þess er gert ráð fyrir sex deilda leikskóla og lóð fyrir verslun eða þjónustu. Bæjaryfirvöld eru þegar farin að leggja drög að leikskóla og hafa sótt um byggingarleyfi fyrir hann. Deiliskipulagssvæðinu má skipta í tvennt út frá legu landsins sem hækkar tiltölulega hratt til norðausturs, því má segja að um sé að ræða tvö hverfi eða íbúðarhúsasvæði, efra og neðra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri skipulagssviðs Grindavíkurbæjar segir gatnagerð í hverfinu skipt í þrjá áfanga. Gert er ráð fyrir því að hverfið byggist fyrst upp í framhaldi af núverandi gatnakerfi og nálægðri byggð. Horft væri til þess að byggð rísi fyrst þar sem landið er flatara og síðar uppi á hæðinni. Uppbygging mun þó verða háð eftirspurn og aðstæðum í samfélaginu. Íbúðarbyggðin er í meginatriðum lágreist, einnar og tveggja hæða sérbýlishús og tveggja til þriggja hæða lítil fjölbýlishús. Á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir allt að 404 íbúðum.

Í samtali við Víkurfréttir segist Atli Geir merkja talsverðan áhuga á lóðum í þessum fyrsta áfanga Hlíðarhverfis. Þær götur sem eru í 1. áfanga eru Arnahlíð, Brattahlíð (að hluta), Fálkahlíð, Kríuhlíð, Lóuhlíð, Mávahlíð og Spóahlíð. Við þessar götur eru samanlagt 77 lóðir.

Breytingar voru gerðar á lóðarúthlutunarreglum Grindavíkurbæjar á fundi bæjarstjórnar í október 2021. Helstu breytingar sem ber að nefna eru að umsækjendur geta sótt um eins margar lóðir og þeir vilja í hverri úthlutun en takmörkun er á hversu margar lóðir umsækjendur geta fengið. Einstaklingar geta mest fengið eina lóð í sama notkunarflokki úthlutaða á sama fundi. Lögaðilar geta mest fengið tvær lóðir í sama notkunarflokki úthlutað á sama fundi. Ekki er lengur sótt um lóð til vara. Fyrirkomulag við lóðarúthlutun þegar fleiri en einn sækja um lóð er áfram óbreytt, þ.e. fram fer útdráttur.

Opinn kynningarfundur þar sem málefni svæðisins verða kynnt verður haldinn í lok nóvember og verður auglýstur nánar síðar.

Eins og segir hér að framan er gatnagerð í fyrsta áfanga Hlíðarhverfis í fullum gangi og er áætlað að henni ljúki í lok desember 2021Stefnt er að afhendingu lóðanna þann 15. janúar 2022.

Atli Geir Júlíusson viðsstjóri skipulagssviðs Grindavíkurbæjar.