Útgerðarmaður keypti dýrustu viskí- og koníaksflöskurnar í Fríhöfninni
Eðalvískí og koníaksflöskur fyrir á níunda hundrað þúsund krónur seldust í Fríhöfninni í Leifsstöð í vikunni. Um var að ræða tvær skoskar Macallan maltviskí og eina koníaksflösku.
Elsta flaskan var frá árinu 1996 og var þá 50 ára afmælisútgáfa frá þessum þekkta maltviskí framleiðanda. Var því orðin 65 ára gömul. Hún seldist á rétt tæpar 400 þús. kr. Önnur flaska af Macallan gerð seldist á um 300 þús. kr. og svo fór koníaksflaskan á um 100 þús. kr. Flöskur af þessari gerð fara á stórar upphæðir í útlöndum og eru gjarnan seldar á uppboðum, m.a. hjá Sothebys.
Þessar flöskur höfðu ekki selst í Fríhöfninni í yfir 15 ár enda mjög dýrar. Ekki einu sinni í góðærinu. Þær höfðu verið teknar úr versluninni þegar breytingar stóðu yfir og höfðu ekki verið settar fram aftur fyrr en í byrjun vikunnar. Einn starfsmanna fríhafnarinnar á að hafa sagt að þær myndu aldrei seljast en það voru ekki allir á sömu skoðun.
Þekktur útgerðarmaður var á ferðinni og einn starfsmanna Fríhafnarinnar hvatti hann til að kíkja á eðalflöskurnar. „Hann var að velja sér tannbursta og ekki á leiðinni að kaupa sér vín. Ég lýsti flöskunum aðeins fyrir honum. Þetta voru fágætar viskíflöskur og koníak og ég sagði við hann að líklega myndi einhver útlendingur kaupa flöskurnar. Þá sagði maðurinn bara: Við látum það ekki gerast. Ég tek þær allar,“ sagði starfsmaðurinn.