Útgerðarmaður Guðrúnar HF: Hefði getað farið verr
„Við vorum í engri hættu þannig séð, en þetta hefði getað farið verr ef Benni Sæm hefði ekki verið svona nálægt okkur,“ segir Sigurður Aðalsteinsson útgerðarmaður dragnótarbátsins Guðrúnar HF sem var nær strandaður við Sandvík út af Höfnum á Reykjanesi um hádegisbilið í dag. Sigurður segir að belgurinn hafi farið í skrúfuna þegar þeir voru að toga. „Við vorum að toga nálægt landi og Benni Sæm var um 500 metra frá okkur. Við kölluðum strax í hann því við vissum að hann yrði fljótur til okkar.“
Sigurður segir að þeir hafi ekki þurft að kasta akkerum til að varna því að þeir myndu reka upp í fjöru. „Við hefðum notað akkerin ef Benni Sæm hefði ekki verið svona nálægt okkur. Það hefði ekki tekið nema um 5 –6 mínútur að reka upp í fjöru.“
Vel gekk að draga skipið til hafnar í Sandgerði, en þó slitnaði taugin á milli skipanna einu sinni.
VF-ljósmynd/Bergur Þór Eggertsson: Guðrún HF í togi Benna Sæm GK í dag.