Útburði frestað á Hátúni
Útburði fjölskyldu Jakub Polkowski á Hátúni 1 hefur verið frestað til fyrstu viku ágústmánaðar.
Málið hefur verið fyrirferðarmikið í fjölmiðlum að undanförnu eftir að í ljós kom að Jakub missti húsið, sem hann hafði greitt að fullu, á nauðungaruppboði fyrir aðeins brot af verðmæti fasteignarinnar. Jakub er öryrki eftir læknamistök og notaði þær bætur sem hann hlaut fyrir skaðann til að staðgreiða húsið árið 2018.
Friðjón Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir í gær að sveitarfélagið rói öllum árum til að reyna að koma fjölskyldunni til aðstoðar en það væri takmarkað sem bæjaryfirvöld geta gert enda fréttu þau fyrst af málinu þegar það komst í fréttirnar.
Maciek Polkowski, bróðir Jakub, segir í færslu á Facebook-síðu sinni í gær að sér ofbjóði þau skítakomment sem hafa fallið um bróður hans í kjölfar frétta um málið.
„Fyrir 10 árum veikist bróðir minn eftir alvarleg læknamistök, með tímanum því eldri sem hann verður því meira þunglyndur verður hann og byrjar í neyslu um 19 ára gamall.
Hann byrjar að hanga með fólki sem kemur honum meira og meira inn í eiturlyfja heiminn en þegar hann lendir í öllu veseni verður hann einn eftir og allir svo kallaðir “vinir” hans hverfa.
Ekki bara það að það var lækni að kenna að lifið hans var ónýtt það sem eftir er þegar hann var bara 13 ára, en eina sem hann fékk út úr þessu er peningur sem dugaði til að kaupa eitt hús? Finnst það bara galið til að byrja með myndu þið gefa lifið ykkar fyrir eitt hús?“
Maciek heldur áfram og segir það hafa verið erfitt að þurfa að horfa upp á bróður sinn, sem hann spilaði fótbolta með á hverjum einasta degi, þurfa allt í einu vera á hjólastól það sem eftir væri lífs hans; „bara því að læknir nennti ekki að skoða hann almennilega fyrir tíu árum“.
„Ég er ekki að segja að Jakub se saklaus í þessu öllu því hann hefði átt að passa betur upp á þetta. En hvernig getur fólk verið að skrifa núna að hann átti þetta bara skilið því hann passaði þetta ekki sjálfur? Og að þetta sé bara karma því hann er eiturlyfjafikill?
Hverju breytir það að hann var í neyslu er það fólk eitthvað verra en við? Mér finnst þetta allavega galið hvernig þetta kerfi virkar og að sýslumaður og Reykjanesbær leyfa þessu bara að gerast.
Vildi bara segja mina skoðun á þessu því ég á mjög erfitt með að lesa alla þessa “sérfræðinga” tjá sig um eitthvað sem þau hafa enga hugmynd um og vita ekki neitt hvað bróðir minn er búinn að þurfa ganga í gengum,“ segir Maciek og lýkur færslunni með því að bjóðast til að kaupa fasteignina af kaupanda fyrir sama verð og hann greiddi fyrir á nauðungaruppboðinu.